ARNA VALSDÓTTIR


KVIKA
21.01-11.02.2006

Kvika - Lífræn kviksjá - fjórði hluti
Á síðustu árum hef ég þróað innsetningarverk sem ég kalla "Ögn í lífrænni kviksjá" en þar vinn ég með einfaldan tæknibúnað í tilteknu rými. Sú tækni sem ég nota byggir á því að ég skapa sama umhverfi og er inni í kviksjánni eða kaleidoscopinu sem maður lék sér með sem barn nema hvað ég þen það upp í stærra rými sem manneskjan getur gengið inn í og verður hún þá um leið ögnin sem breytir þeirri mynd sem við sjáum, Kviksjáin heillar mig þar eða hún tekur agnir tilverunnar úr samhengi - splundrar þeim um leið og hún sogar þær inn í eigin kjarna. Hún virkjar ákveðið kaos en skapar á sama tíma undarleg kyrrð.
Í verkinu leita ég eftir því að endurskapa þessa kyrrð og undirstrika hana með hljóðmynd sem byggir á raddhryn þar sem ég nota rödd mína teiknaða upp á nokkrar hljóðrásir. Þar flétta ég saman orðin lifandi/sofandi-sofandi/lifandi/-vakandi og læt eina rödd hverfast inn í þá næstu á sama hátt og myndirnar hverfast inn í hver aðra.
Lífræna kviksjáin er ferlisverk sem ég hef sett upp í mismunandi rýmum og breytist það og þróast eftir því hvaða rými það hittir. Hvert rými sem það mætir gefur því nýtt form og ég sé það frá nýjum og oft óvæntum sjónarhornum. Verkið varð til upp úr sýningu/listvísindasmiðju sem ég setti upp árið 2001 á Vísindadegi Háskólans á Akureyri ásamt Guðrúnu Öldu Harðardóttur leikskólakennara og lektor við HA. Frá þeim tíma hef ég ferðast um og sett upp listvísindasmiðjur bæði með börnum og fullorðnum og hafa þær verið virkur þáttur í þróun verksins.

Texti: Arna Valsdóttir.