SÓLVEIG EINARSDÓTTIR


DAGUR OG PRINS
06.05-25.05.2006


Sólveig Einarsdóttir sýnir nú í hinu smáa sýningarrými Gallerí Box á Akureyri. Annars vegar er um að ræða nokkuð stórar ljósmyndir; tækifærismyndir á vegg af gæludýrum hennar, hundinum Degi og kettinum Prinsi. Hins vegar standa á gólfinu skúlptúrar af Degi og Prinsi sem útfærðir hafa verið í gæludýrakexi sem myndar fagra mósaíkáferð á yfirborðinu. Skúlptúrarnir bera vott um næma formskynjun listamannsins. Þeir eru færðir í stílinn og minna á verk naívista, eða bernskra listamanna, og ljær það sýningunni allri innilegan blæ.
Í ljósrituðum einblöðungi, sem fylgir sýningunni, kemur í ljós að hér virðist vera um nokkurs konar minningarsýningu að ræða því þar er rætt um Dag og Prins í þátíð. Rakin er skondin saga pabba af því þegar Dagur tók sér far með strætisvagni upp á eigin spýtur og Raggi segir frá vandræðagangi í samskiptum við Prins um það leyti sem hann var að stíga í vænginn við Sólveigu, en svo virðist sem Prins hafi verið miklum vendareiginleikum gæddur. Þá má lesa stutt minningarorð Bjargar systur um gæludýrin. Textarnir lýsa mikilli væntumþykju auk þess að vekja athygli á því að gæludýr eru gjarnan mikilvægur hluti af fjölskyldusögunni og hafa sín persónueinkenni og sérvisku rétt eins og aðrir.
Þá vísa ljósmyndirnar af Degi og Prinsi ekki síður til fjölskyldufrásagnarinnar. Í bókinni On Photography bendir Susan Sontag á"magískan"eiginleika ljósmyndarinnar sem felst í því að mynd verði eins og hluti af viðfangsefni sínu. Þetta mætti heimfæra á þá tilhneigingu að benda á myndirnar af Degi og Prinsi og segja"þetta eru Dagur og Prins" Í ljósi slíkra eiginleika ræðir Sontag ennfremur hvernig athöfnin að taka ljósmyndir tengist gjarnan skrásetningu á fjölskyldusiðum, s.s. brúðkaupum og afmælum. En hún bendir á að ljósmyndir séu jafnframt memento mori: Þær minni á dauðann, það sem liðið er og verður aldrei endurtekið. Í þeim sé fóglin ákveði "gervinærvera". Maður haldi sig hafa einhvern hjá sér í formi ljósmyndar en myndin sýni um leið fram á fjarveru viðkomandi.
Stytturnar á gólfinu bera einnig með sér slíka tvíræðni. Lyktin af gæludýrakexinu gefur til kynna líkamlega nærveru dýranna (auk þess að minn á máltækið "við erum það sem við borðum") rétt eins og þau séu á næsta leiti og ýtir undir eiginleika styttnanna sem minnisvarða: Þær vekja upp minningar og sögur en áðurnefndir textar veita sýningargestinum innsýn í slíkar sögur. Stytturnar eru hins vegar til marks um fjarlægð - þær eru minnisvarðar um þá sem eru horfnir á braut. Stílfært formið ýtir undir slíka fjarlægð, líkt og um egypskar múmíur væri að ræða, auk þess að skírskota til trúarlegra tákna.
Í viðleitni til að gefa vísbendingar um líf og persónueinkenni gæludýra sinna setur Sólveig sig að nokkru leyti í stellingar ævisagnaritarans og nýtir sér textatilvitnanir og ljósmyndina sem tæki til að skyggnast inn í liðna tíð. Sýningin lætur lítið yfir sér en í henni eru fólgnar tilraunir með flókið samspil minninga og framsetningar, hins huglæga og efnislegra hluta.

Texti: Anna Jóa, myndlistargagnrýnandi Morgunblaðsins.

Sólveig Einarsdóttir er fædd í Reykjavík 1975 og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga. Hún er útskrifuð frá LHÍ 2003.