ÞÓRUNN E. SVEINSDÓTTIR





Hræðilega fallegur

ÞÓRUNN Elísabet Sveinsdóttir hefur fengist við búningahönnun fyrir kvikmyndir og leikhús við góðan orðstír. En Þórunn er ekki síður kunn fyrir teppasaum og þessa dagana stendur yfir sýning á verkum hennar í Gallerí Boxi á Akureyri undir yfirskriftinni Blíðlyndi. Í svartmáluðu boxinu hanga fimm verk úr svörtu efni. Fjögur þeirra sýna upphleypt Valentínusarhjörtu samsett úr textílefni, títuprjónum og tölum, og vísa ýmist til frágangs eða undirbúnings á sniði. Fimmta verkið er svo svartflúrað bútasaumsteppi sem á stendur orðið „Ást“. Fyrir utan boxið hanga önnur tvö litrík teppi og aftur er Valentínusarhjartað í aðalhlutverki. Að þessu sinni í hjartastað, anatómískt séð. Efnisnotkun Þórunnar er ríkuleg; blúndur, útsaumur og sitthvað fleira. Og öllu ægir saman í vandlegri myndbyggingu svo til verður undarleg blanda af rókókó og abstrakt geometrískri komposisjón. Svartmáluð „innsetningin“ dempar dekorið eilítið en bætir að sama skapi við einhverskonar „neogothik“ stemningu sem er létt dramatísk (ég sé fyrir mér Johnny Depp í hlutverki Sweeney Todd). Líður sýningin fyrir kaótískt umhverfið og vafasamt að færa hana þetta langt inn í vinnustofur listamanna án þess að vinna beinlínis með það umhverfi.
Textíllinn stendur þó fyrir sínu og fer Þórunni vel að vera sem yfirgengilegust í skrautinu. Hæstum hæðum nær hún í verkunum, „Ást“ og „Í hjartastað“ sem eru hræðilega falleg.
Morgunblaðið 31.01.2008 Jón B.K. Ransu

Þórunn Elísabet Sveinsdóttir hefur unnið við leikhús í um tvo áratugi en einnig gert búninga fyrir sjónvarp, tónlistarmyndbönd, auglýsingar og kvikmyndir. Hún gerði t.d. búninga fyrir kvikmyndirnar 101 Reykjavík, Ikingut og Hafið. Henni voru veitt Grímuverðlaunin 2004 - Íslensku leiklistarverðlaunin fyrir bestu búninga ársins í sýningu Versturports á Romeo og Júlíu. Meðal leiksýninga sem Þórunn hefur unnið búninga fyrir við Þjóðleikhúsið eru Gauragangur, Snædrottningin, Taktu lagið Lóa, Sjálfstætt fólk og Krítarhringurinn í Kákasus. Nýleg verkefni Þórunnar við Þjóðleikhúsið eru búningar fyrir Rambó 7 og fyrir Klaufa og kóngsdætur (H.C. Andersen), en fyrir þá búninga var hún tilnefnd til Grímunnar 2005. Nýustu verk hennar innnan Þjóðleikhússins eru Umbreyting, Stórfengleg!, Sitji guðs englar, Leitin að jólunum, Leg og nú er í vinnslu Baðstofan, sem frumsýnd verður í febrúarbyrjun og unnin er af sama hópi og gerði Leg, en fyrir þá sýningu fékk hún Grímuna og kosin Búningahöfundur ársins 2007. Á Listahátíð 2007 var hún einn höfunda leiksýningarinnar Gyðjan í vélinni sem vakti mikla athygli, fékk mjög lofsamlega umfjöllun og var tilnefnd ein besta sýning ársins.
Frá unlingsárum hefur Þórunn fundið útrás listsköpunar í teppasaumi og óhætt að fullyrða að þar hefur hún þróað sérstakan og persónulegan stíl. Eftir hana liggja mörg hundruð teppi hérlendis og erlendis, en hér er eru nú sýnd örfá af nýjustu teppunum hennar.