Spuni og Hjartað í vélinni


Spuni og Hjartað í vélinni

23. október – 13. nóvember 2010.

Á laugardag verða opnaðar tvær einkasýningar eftir myndlistarmennina Kristínu Elvu Rögnvaldsdóttur og Melkorku Huldudóttur í sal Myndlistarfélagsins og Gallerí Box á Akureyri.

Í sal Myndlistarfélagsins sýnir Kristín Elva Spuna; teikningar, ljósmyndir og málverk á panel. Kristín Elva vinnur verkin út frá sjónarhorni smádýra sem eiga líf sitt og dauða undir rándýrum og dyntum náttúrunnar.

Í Gallerí Boxi sýnir Melkorka Huldudóttir Hjartað í vélinni. Verkið er innsetning með myndbandi og hljóði. Með sýningunni skoðar Melkorka manneskjuna og tækni nútímans í tengslum við vísindaskáldskap og kvalarfulla lengingu lífs.

Um listamennina

Kristín Elva Rögnvaldsdóttir lauk prófi frá Myndhöggvaradeild Myndlistar- og handíðaskólans árið 1998 og Mastersgráðu frá Konunglegu Listaakademíunni í Stokkhólmi þremur árum síðar. Í listsköpun sinni notar Kristín Elva blandaða miðla; skúlptúr, ljósmyndir, teikningar og hreyfimyndir. Hún vinnur meðal annars út frá hinu hversdagslega í náttúrunni, klisjum í manngerðu umhverfi og sagnahefð. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis.

Melkorka Huldudóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2002. Hún notar alla mögulega miðla við listsköpun sína og er undir sterkum áhrifum frá kvikmyndum, vísindaskáldskap og tölvuleikjum. Melkorka hefur tekið átt í fjölmörgum sýningum og verkefnum hér heima og erlendis.

Salur Myndlistarfélagsins og Gallerí Box eru í Listagilinu Akureyri, Kaupvangsstræti 10 og eru opin laugardaga og sunnudaga frá kl. 14-17.